Fjármála- og efnahagsráðuneytið, fyrir hönd Ríkissjóðs Íslands, tilkynnti í dag upphaf markaðssetts útboðs á almennum hlutum í Íslandsbanka hf. og birtingu tengdrar útboðslýsingar. Um útboðið hafa verið samþykkt sérstök lög frá Alþingi (lög nr. 80/2024) og byggir öll framkvæmd útboðsins á þeim.
Arctica Finance er í hlutverki söluaðila í útboðinu.
Einstaklingum og lögaðilum stendur til boða að taka þátt í útboðinu sem hófst í morgun og stendur til fimmtudagsins 15. maí n.k. kl. 17:00.
Til sölu eru að lágmarki 376.094.154 hlutir í Íslandsbanka hf, eða 20% af heildarhlutafé bankans. Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að auka útboðsmagnið ef umframeftirspurn verður til staðar í útboðinu, og getur möguleg magnaukning numið öllum eftirstandandi hlutum ríkisins í Íslandsbanka eða samanlagt 45,2% af hlutafé.
Útboðslýsing var birt í dag þar sem tilkynnt var um stærð útboðsins og verð á hverjum hlut í tilboðsbók A, ásamt fleiri atriðum. Útboðslýsinguna má nálgast hér, en mögulegir kaupendur eru hvattir til þess að kynna sér vel innihald lýsingarinnar áður en ákvörðun um fjárfestingu er tekin, þ. á m. skilmála útboðsins og umfjöllun um áhættuþætti.
Í útboðinu eru þrír áskriftarmöguleikar í boði; tilboðsbók A, tilboðsbók B og tilboðsbók C sem eru mismunandi er varðar þátttöku, forgang, stærð áskrifta og úthlutun.
Áskriftartímabilið er frá kl. 8:30 þriðjudaginn 13. maí til kl. 17:00 fimmtudaginn 15. maí n.k. Gert er ráð fyrir að niðurstöður útboðsins verði birtar þann 15. maí 2025. Lokadagur greiðslu úthlutaðra hluta er ákveðinn 20. maí 2025.
Í útboðinu er sérstök áhersla lögð á þátttöku einstaklinga eins og lög nr. 80/2024 kveða á um. Úthlutun á bréfum á grundvelli tilboðsbókar A, þ.e. úthlutanir til einstaklinga með íslenska kennitölu, hafa forgang umfram tilboðsbækur B og C, og munu þeir njóta lægsta verðs.
Athygli er vakin á því að fjármála- og efnahagsráðuneytið mun birta lista yfir kaupendur, bæði einstaklinga og lögaðila, að útboði loknu.
Hafa má samband við markaðsviðskipti Arctica Finance vegna hugsanlegrar þátttöku í útboðinu:
Aðrir íslenskir söluaðilar eru Arion banki hf., Kvika banki hf. og Landsbankinn hf. Upplýsingar um söluaðila má finna á heimasíðu stjórnarráðsins.