Augnlyfjaþróunarfélagið Oculis, sem vinnur að þróun nýrra lyfja til meðhöndlunar á alvarlegum augnsjúkdómum, hefur tilkynnt um PIPE fjármögnun upp á um 80 milljónir bandaríkjadala samhliða fyrirhugaðri skráningu félagsins í Bandarísku kauphöllina NASDAQ. Skráningin mun fara fram með sameiningu Oculis og sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) European Biotech Acquisition Corp („EBAC“), en tilkynnt var um samrunasamning félaganna tveggja í dag. Gert er ráð fyrir að þegar sameining Oculis og EBAC hefur að fullu gengið í gegn, sem ráðgert er að verði á fyrri hluta árs 2023, muni heildarvirði (e. Enterprise Value) Oculis nema um 220 milljónum dala og félagið með sjóðstöðu yfir 200 milljónum dala, að því gefnu að engar innlausnir verði í EBAC.
Oculis á rætur að rekja til Háskóla Íslands og Landspítala, en félagið var stofnað af Dr. Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum og Dr. Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði. Það lyf sem lengst er komið í þróun hjá Oculis, OCS-01, byggir á einkaleyfavarinni tækni, sem gerir mögulegt að meðhöndla sjúkdóma í afturhluta augans með augndropum. OCS-01 er í dag í alþjóðlegum fasa 3 klínískum prófunum til meðhöndlunar á sjónhimnubjúg í sykursýki og gæti orðið fyrsta lyfið í formi augndropa til meðhöndlunar á sjúkdóm í afturhluta augans.
Fyrsta vísisfjármögnun félagsins (Series A) fór fram árið 2016 og var leidd af Brunni vaxtarsjóði og Silfurbergi. Í árslok 2017 urðu vatnaskil í starfsemi Oculis þegar þrír erlendir vísisjóðir komu að félaginu (Series B1). Í kjölfar þess var sett upp móðurfélag og höfuðstöðvar í Sviss. Á sama tíma var rannsóknarstarfsemi félagins efld, m.a. með nýrri rannsóknaraðstöðu og fjölgun starfsmanna á Íslandi. Frekari vísifjármagnanir hafa fylgt, en í ársbyrjun 2019 var tilkynnt um Series B2 fjármögnun og í maí 2021 um Series C fjármögnun Oculis. Samtals hefur Oculis til dagsins í dag sótt um $110m í fjármagn til rannsóknar og þróunar nýrra augnlyfja.
Gert er ráð fyrir að sameining fyrirtækjanna geti skilað Oculis yfir 200 milljónum dala (ef gert er ráð fyrir engum innlausnum). Þetta felur í sér 127,5 milljóna dala innspýtingu reiðufjár sem kemur úr sjóðum EBAC (ef gert er ráð fyrir engum innlausnum) og tæpar 80 milljónir dala með lokuðu hlutafjárútboði („PIPE-fjármögnun“), þar af um fjórðungur frá íslenskum fjárfestum sem samanstanda af lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum, tryggingafélögum og öðrum fjárfestingarfélögum.
Meðal kjölfestufjárfesta í PIPE-fjármögnuninni eru LSP 7, einn stærsti líftæknisjóður Evrópu, Earlybird, Novartis Venture Fund, Pivotal bioVenture Partners, Tekla Capital Management LLC og VI Partners, meðal annarra.
Arctica Finance var ráðgjafi EBAC í tengslum við fjárfestingu íslenskra aðila í PIPE fjármögnuninni, en aðrir ráðgjafar voru Bank of America, SVB Securities, Credit Suiss og Kempen. Lögfræðiráðgjafar í tengslum við viðskiptin voru Cooley (UK) LLP, VISCHER SA, SA. Davis Polk & Wardwell LLP, Stibbe N.V., Maples Group, Shearman & Sterling LLP og BBA//Fjeldco.